Ferill 800. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1573  —  800. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/2013, um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, með síðari breytingum (fjárheimild).


Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.



    Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum nr. 41/2013 í þá veru að fella brott fjárhæð sem þar er lögfest enda hefur komið í ljós að kostn­aður við gerð vegtengingarinnar er meiri en áður var talið.
    Meiri hlutinn bendir á að því frumvarpi sem varð að lögum nr. 41/2013 fylgdi umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins eins og venja er. Þar var bent á að í frumvarpinu væri kveðið á um að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fengi heimild til að semja annars vegar við Vegagerðina um gerð vegtengingar við iðnaðarsvæðið og hins vegar við hafnarsjóð Húsa­víkurhafnar um fjárframlag í formi víkjandi láns. Í umsögninni var bent á að uppbygging og rekstur sam­gönguinnviða heyrðu undir verksvið innanríkisráðherra og að lánsfjármál væru á hendi fjármála- og efnahagsráðherra.
    Á 143. löggjafarþingi lagði meiri hluti atvinnuveganefndar til breytingu á lögunum í því skyni að framlengja gildistíma þeirra um eitt ár og var einnig lagt til að heimild til að semja við hafnarsjóðinn um víkjandi lán heyrði undir þann ráðherra sem fer með lánsfjármál ríkissjóðs, þ.e. fjármála- og efnahagsráðherra. Frumvarp nefndarinnar var samþykkt, sbr. lög nr. 131/2014.
    Þar sem sam­gönguframkvæmdir almennt falla undir málefnasvið innanríkisráðherra kom til umræðu í nefndinni hvort heppilegra væri að svo væri einnig í þessu tilviki, þ.e. að innanríkisráðherra fari með forræði þeirrar framkvæmdar sem heyrir undir lögin.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. júlí 2015.

Jón Gunnarsson,
form., frsm.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Haraldur Benediktsson.
Ásmundur Friðriksson. Páll Jóhann Pálsson. Þorsteinn Sæmundsson.
Haraldur Einarsson.